Saga Þuríðar

Þuríður Arna Óskarsdóttir fæddist á Landspítalanum þann 20. maí 2002. Hún lést á heimili sínu í Reykjavík þann 20. mars 2023.

Foreldrar Þuríðar eru Óskar Örn Guðbrandsson og Áslaug Ósk Hinriksdóttir. Þuríður eignaðist fjögur systkini Oddnýju Erlu, Theodór Inga, Hinrik Örn og Jóhönnu Ósk.

Tveggja ára gömul greindist Þuríður með illvíga flogaveiki og í framhaldinu fannst góðkynja æxli í heila hennar. Í 18 ár barðist hún hetjulega við meinið, gekk í gegnum erfiðar lyfja- og geislameðferðir og fjórum sinnum gekkst Þuríður undir opnar heilaaðgerðir þar sem reynt var að fjarlægja æxlið. Þrátt fyrir að hafa átt góð ár inn á milli tók meinið sig ávallt upp aftur og að lokum játuðu læknavísindin sig sigruð í júlí 2022. Við tók líknandi meðferð þar sem Þuríður dvaldi á heimili sínu umvafin ást og umhyggju foreldra sinna, systkina og stórs hóps ættingja og vina.

Þrátt fyrir erfið veikindi hóf Þuríður skólagöngu á leikskólanum Hofi og fór í framhaldinu í fyrsta bekk í Norðlingaskóla. Þegar á leikskólaaldri var ljóst að mein Þuríðar hafði veruleg áhrif á þroska hennar og átti hún strax erfitt með að halda í við skólasystkini sín. Þegar kom að sjötta bekk grunnskóla fékk Þuríður inngöngu í Klettaskóla í Öskjuhlíð þar sem hún kláraði grunnskóla. Í framhaldinu fór hún á starfsbraut í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti þaðan sem hún útskrifaðist vorið 2022.

Þuríður fékk einnig sín tækifæri á vinnumarkaði þar sem hún starfaði í afgreiðslu hjá TBR í Gnoðavogi með dyggum stuðningi frá móður sinni.